top of page
Ég held að allir geti verið sammála því að síðustu vikur og mánuðir hafa verið krefjandi og í raun fordæmalausir. Það er skrítið að upplifa ástand og afleiðingar COVID-veirunnar og enn skrítnara að vera nemandi á meðan. Skólanum lokað, samkomubann skollið á og nú höfum við meira og minna þurft að halda okkur heima.
En auðvitað er hægt að finna bjartar hliðar á öllu og ástandið í samfélaginu hefur gefið okkur tækifæri til þess að gera eitthvað alveg nýtt og einstakt því að allar líkur eru á að þetta verði einsdæmi. Þetta er í fyrsta og líklega eina skiptið sem grafísk miðlun heldur útskriftina sína rafrænt! Hversu svalt er það?!
Fyrir þá fáu sem enn ekki vita hvað við gerum í grafískri miðlun, þá ætla ég að leyfa mér að útskýra það stuttlega. Ef þú hefur snefil af áhuga á hönnun eða uppsetningu á grafísku efni, þá er grafísk miðlun líklega fjölbreyttasta og skemmtilegasta nám sem þú getur komið þér í. Hér er bókaumbrot, stofnun fyrirtækja, almenn hönnun og typógrafía; svo að fátt eitt sé nefnt. Grafísk miðlun er fullkominn stökkpallur út á vinnumarkaðinn eða í frekara nám.
Hér fyrir neðan er hægt að sjá útskriftarsíðurnar okkar. Þið einfaldlega smellið á myndirnar af okkur nemendunum og eruð sjálfkrafa færð á síðu hjá hverjum og einum.
Eitt enn! Við settum upp rafræna gestabók hér á síðunni. Ef að þið hafið einhverjar spurningar varðandi útskriftina eða námið eða viljið einfaldlega kasta kveðju á okkur, þá getið þið skrifað stuttlega í hana.
Við vonum að þið njótið og gleðilegt sumar!
bottom of page