Ég heiti Íris Irma Ernisdóttir, fædd þann 4. október árið 1995, uppalin í Reykjavík og á Akranesi. Frá unga aldri hef ég haft mikinn áhuga á því sem snýr að listum enda fékk ég viðurkenningu við útskrift úr grunnskóla fyrir frábæran árangur í list- og verkgreinum.
Úr grunnskóla lá leiðin í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi en þar tók ég síðar á hlé á námi og fór sem barnfóstra (au pair) til Parísar. Ævintýraþránni var þó ekki svalað í Frakklandi og í framhaldi réði ég mig til vinnu í Svíþjóð áður en ég kom heim og hélt áfram námi. Ég útskrifaðist með stúdentspróf frá Borgarholtsskóla þar sem kjörsvið mitt var kvikmyndagerð en þar fékk ég meðal annars áhuga á grafískri miðlun sem varð til þess að ég skráði mig í það nám, þrátt fyrir töluverðan valkvíða.
Búddha skilgreindi uppljómun sem endalok þjáningar og þrátt fyrir að þjáning sé nokkuð sterkt orð yfir valkvíða þá lít ég á grafíska miðlun sem mína uppljómun því nú veit ég hvað mig langar að vinna við, það er grafísk miðlun og hönnun.